Leiðbeiningar um innkaup fyrir opinbera aðila
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út einfaldar og skýrar leiðbeiningar til innkaupafólks hins opinbera.
Ríkið ráðstafar á hverju ári yfir 200 ma. kr. í opinber innkaup, sem eru vörur, margskonar og verklegar framkvæmdir. Sveitarfélög ráðstafa álíka fjárhæð á hverju ári, og aðrir ríkisaðilar sem falla undir lög um opinber innkaup ráðstafa einnig mörgum tugum milljarða í gegnum útboð.
Til mikils er að vinna að nýta innkaup og samvinnu hins opinbera við einkamarkaðinn, ekki síst til að bregðast við núverandi efnahagsástandi.
Viðmið um góða starfshætti við opinber innkaup
Fjármála og efnahagsráðuneytið hefur gefið út viðmið um góða starfshætti fyrir starfsmenn sem annast opinber innkaup. Markmið þessara viðmiða er að setja fram leiðbeiningar um hvernig beri að umgangast viðskiptavini, þ.e. fyrirtæki og bjóðendur, og komast hjá hagsmunaárekstrum.
Viðmiðin eiga jafnframt að viðhalda trausti til opinberra innkaupa og tryggja jafnræði og samkeppni á markaði. Viðmið þessi eru nánari útfærsla á almennum siðareglum starfsmanna ríkisins en innkaupastarfsmenn skulu jafnframt, eftir því sem við á, fara eftir siðareglum sem gilda á þeirra eigin stofnunum.
Viðmiðum þessum er ætlað að vera leiðbeinandi og hvetja til umhugsunar um hvað teljist góðir starfshættir. Telji einstaka stofnanir þörf á ítarlegri reglum eru þær eindregið hvattar til að setja sér slíkar reglur í samráði við starfsmenn.