Fara í efni

ÚTBOÐSSKYLDA Á FÉLAGSÞJÓNUSTU OG ANNARRI SÉRTÆKRI ÞJÓNUSTU

„Létta leiðin“ (e: Light regime)

Útboðsskylda á samningum sem áður voru undanþegnir lögum um opinber innkaup

Í VIII. kafla laga um opinber innkaup nr. 120/2016 (OIL) er það nýmæli að ýmis þjónusta sem áður var undanþegin útboðsskyldu er orðin útboðsskyld ef opinber aðili ákveður að kaupa hana af fyrirtæki (sbr. skilgreiningu OIL). 

Viðmiðunarmörk um útboðsskyldu eru talsvert mikið hærri en vegna annarrar þjónustu og rýmri reglur gilda um aðferðir við útboð og val á tilboðum.

Samkvæmt reglugerð nr. 360/2022 eru viðmiðunarfjárhæðir vegna sértækra samninga kr.112.724.000 kr.-

- Viðmiðunarfjárhæðir vegna innkaupa sem ekki falla undir „Léttu leiðina"

Framsetning á viðmiðunarfjárhæðum  er skv. reglugerðum sem kunna að breytast og því eru kaupendur hvattir til að kanna sérstaklega hvort viðmiðunarfjárhæðir eru réttar áður en mat er lagt á útboðsskyldu.  Einnig þarf að horfa til III. kafla laga um hvernig reikna skal út viðmiðunarfjárhæðir þjónustusamninga.

Einfaldari útboðsaðferðir

Þessi útboðsleið er kölluð „Létta leiðin“ af því að nægilegt er að auglýsa innkaupin fyrirfram með forauglýsingu. Í forauglýsingunni skal vísað sérstaklega til þeirrar tegundar þjónustu sem gera á samninga um. Þar skal koma fram að samningarnir verði gerðir án frekari birtingar og áhugasömum aðilum boðið að láta áhuga sinn í ljós skriflega. Tímabil sem forauglýsing tekur til skal vera mest 36 mánuðir frá þeim degi þegar auglýsing er send til birtingar.  Sjá nánar 92.- 94. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016.

Þegar innkaup fara fram eftir forauglýsingu skal nota einhvern þeirra innkaupaferla sem lögin bjóða upp á og má velja þá að vild.  Einnig má auglýsa beint sérstakt útboð – eða innkaupaferil - án forauglýsingar.  Þessar leiðir eiga að vera einfaldari vegna þess að heimilt er að velja innkaupaferla að vild og framsetning valforsendna er mun frjálsari en almennt gerist.  Þá þykir vera hagræði í því að geta beitt forauglýsingu sem gildir næstu þrjú árin.

Í upptalningu hér fyrir neðan eru taldar upp allar þjónustutegundir sem falla undir léttu leiðina sbr. reglugerð nr. 1000/2016 um innkaup sem falla undir félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu samkvæmt lögum um opinber innkaup en í reglugerðinni sjálfri er vísað í númer í sameiginlegu innkaupaorðasafni Evrópusambandsins.

Efni útboðs- og forauglýsinga skv. léttu leiðinni

Í reglugerð 955/2016 um kröfur á sviði opinberra innkaupa um upplýsingar sem koma eiga fram í auglýsingum og öðrum tilkynningum eru þrjár greinar sem fjalla sérstaklega um auglýsingar skv. léttu leiðinni.  Það eru eftirtaldar greinar:

7. gr. Útboðstilkynning vegna samninga um félagsþjónustu eða aðra sértæka þjónustu.

8. gr. Forauglýsing vegna samninga um félagsþjónustu eða aðra sértæka þjónustu.

9. gr. Tilkynning samnings um félagsþjónustu eða aðra sértæka þjónustu.

Skylt er að tilkynna um fyrirhuguð útboð, fyrirhugaða samninga og alla samninga sem búið er að gera og ná viðmiðunarfjárhæðum í viðbæti við stjórnartíðindi Evrópusambandsins, sjá: http://ted.europa.eu/TED/main/HomePage.do

Samningar um sértæka þjónustu falla nú undir valdsvið kærunefndar útboðsmála

Eftir að ný lög um opinber innkaup tóku gildi í október, eru sértækir samningar orðnir útboðsskyldir og séu slíkir samningar gerðir án auglýsinga og án þess að fylgja reglum laganna, má kæra þá til kærunefndar útboðsmála.

Samningar milli opinberra aðila ekki útboðsskyldir

Kjósi opinber aðili að útvista þjónustu sem alla jafna er veitt af ríkinu eða styrkja tiltekna þjónustu, ber að fylgja framangreindum lögum og reglugerðum ef viðmiðunarfjárhæðum um útboðsskyldu er náð.  Ekki þarf að bjóða út slíka samninga ef þeir eru gerðir á milli opinberra aðila skv. 13. gr. laga um opinber innkaup.

Tegundir þjónustu (sértækir samningar) sem falla undir léttu leiðina

Um er að ræða þjónustu sem áður var ekki talin útboðsskyld en einnig er í sumum tilfellum um að ræða þjónustu sem er að vissu marki undanþegin útboðsskyldu skv.  11. gr. laga um opinber innkaup en telst útboðsskyld skv. framangreindum reglum þegar samningur nær 112.724.000  króna markinu.

Athugið að einhverjar þjónustutegundir kunna að vera innan rammasamnings og þá ber að kaupa þjónustuna inn skv. rammasamningnum ef samningsstofnun er aðili að honum.

Sjá upptalningu á þjónustutegundum sem falla undir léttu leiðina í lista hér fyrir neðan: 

1. gr. Innkaup á eftirfarandi sviðum falla undir félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu skv. 92. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016:

  1. Heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta og þjónusta tengd henni.
  2. Stjórnsýsluþjónusta, félagsþjónusta, þjónusta á sviði menntunar, heilsugæslu og menningarstarfsemi.
  3. Lögboðnar almannatryggingar (þjónustan fellur þó ekki undir lög um opinber innkaup ef hún er skipulögð sem þjónusta í almannaþágu sem er ekki af efnahagslegum toga).
  4. Þjónusta sem tengist greiðslu bóta frá hinu opinbera.
  5. Önnur samfélagsþjónusta, félagsleg og persónuleg þjónusta, þ.m.t. þjónusta stéttarfélaga, stjórnmálasamtaka, æskulýðssamtaka og annarra félagasamtaka.
  6. Þjónusta trúfélaga.
  7. Hótel- og veitingaþjónusta.
  8. Lögfræðiþjónusta, að því marki sem hún er ekki undanskilin skv. 11. gr. laga um opinber innkaup.
  9. Önnur stjórnsýsluþjónusta og opinber þjónusta.
  10. Þjónusta við samfélagið.
  11. Þjónusta tengd fangelsum, þjónusta við almannaöryggi og björgunarþjónusta, að því marki sem hún er ekki undanskilin skv. 11. gr. laga um opinber innkaup.
  12. Eftirgrennslan og öryggisþjónusta.
  13. Alþjóðleg þjónusta.
  14. Póstþjónusta.

2. gr. Kaupanda er heimilt að takmarka rétt til þátttöku í innkaupaferlum í samræmi við skilyrði 95. gr. laga um opinber innkaup nr. 120/2016 vegna innkaupa á eftirfarandi flokkum á sviði heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og þjónustu á sviði menningarmála:

  1. Stjórnsýsla á sviði menntamála, heilsugæslu og húsnæðismála.
  2. Heimilishjálp, hjúkrunarþjónusta og önnur þjónusta heilbrigðisstarfsfólks.
  3. Fræðslustarfsemi á forskólastigi eða á æðra námsstigi.
  4. Þjálfunarþjónusta.
  5. Fullorðinsfræðsla á háskólastigi.
  6. Þjálfun starfsfólks, aðstaða til þjálfunar og kennslu- og leiðbeiningarþjónusta (einkatímaþjónusta).
  7. Heilbrigðis- og félagsþjónusta.
  8. Þjónusta á sjúkrahúsum og tengd þjónusta.
  9. Stoðtækjaþjónusta, súrefnismeðferð, meinafræðileg þjónust.
  10. Stoðþjónusta og rúmfataþjónusta fyrir sjúkrahús.
  11. Heilsugæsla og þjónusta lækna.
  12. Tannlækningar og tengd þjónusta.
  13. Ýmis heilbrigðisþjónusta.
  14. Ráðgjafarþjónusta hjúkrunarfræðinga.
  15. Þjónusta sjúkraliða og sjúkraþjálfara.  
  16. Smáskammtalækningaþjónusta.
  17. Hreinlætisþjónusta.
  18. Heimsending á vörum til nota við lausheldni.
  19. Sjúkraflutningaþjónusta.
  20. Heilbrigðisþjónusta og hjúkrun á dvalarheimilum.
  21. Þjónusta læknisfræðilegra rannsóknarstofa.
  22. Þjónusta blóðbanka, sæðisbanka og líffærabanka.
  23. Heilbrigðisþjónusta í fyrirtækjum.
  24. Læknisfræðileg greiningarþjónusta.  
  25. Þjónusta lyfsala.
  26. Dýraheilbrigðisþjónusta.
  27. Félagsráðgjafaþjónusta og þjónusta tengd henni.
  28. Velferðarþjónusta fyrir aldraða, fatlaða eða börn og ungmenni.
  29. Félagsráðgjafaþjónusta án dvalar á stofnun.
  30. Dagvistunarþjónusta.
  31. Leiðbeininga- og ráðgjafarþjónusta þ.m.t.
  32. Velferðarþjónusta, ekki á vegum dvalarstofnana. 
  33. Endurhæfingarþjónusta og starfstengd endurhæfing.
  34. Félagsþjónusta.
  35. Stjórnsýsla á sviði félagsþjónustu.
  36. Aðgerðaáætlanir á vegum sveitarfélaga.
  37. Heilsugæsla á vegum sveitarfélaga.
  38. Þjónusta bókasafna, skjalasafna, safna og önnur menningarstarfsemi
  39. Íþróttastarfsemi.
  40. Þjónusta veitt af félagslegum aðildarsamtökum og ungmennafélögum.

Sjá nánari upptalningu á þjónustutegundum sem falla undir léttu leiðina 1. gr og 2. gr.  í PDF skjali  hér fyrir neðan: